29.12.2014 20:50

Samantekt ársins 2014 í máli og myndum

Það er ekki ofsögum sagt að árið 2014 hafi verið viðburðarríkt á Lækjamóti og hjá meðlimum Lækjamótsfjölskyldunnar.  Með annál þessum langar okkur að taka saman í stuttu máli það helsta sem hefur gerst á árinu og um leið óska öllum vinum, ættingjum og öðrum dyggum lesendum gleðilegs nýs árs með kærri þökk fyrir það liðna. 

 

Keppnistímabilið byrjaði með látum, fyrsta mót ársins var eitt sterkasta innimót ársins, fjórgangur í Meistardeild Vís og fyrstu úrslit ársins staðreynd.  Ísólfur átti eftir að vera næstu vikur og mánuði á faraldsfæti þar sem hann keppti í báðum meistaradeildum landsins KS og VÍS. Með góðu skipulagi og stuðningi vina og fjölskyldu sem öll lögðust á eitt að láta allt ganga upp tókst Ísólfi að mæta á öll mótin og árangur í báðum deildum glæsilegur, samalagður sigurvegari í KS deildinni og 6.-7. sæti í Meistaradeild VÍS.  Vigdís tók einnig stórt skref á árinu í að auka keppnisreynslu, auk minni móta tók hún þátt í KS deildinni, komst þar í ein A-úrslit og lagði helling inn á reynslubankann.

 

 

Um það leiti sem útimótin voru að hefjast og fyrstu folöldin að koma í heiminn sýndi Ísólfur hryssuna Vík frá Lækjamóti í kynbótadóm. Vík er 4. vetra hryssa undan Óm frá Kvistum og Breytingu frá Lækjamóti, ræktuð af og í eigu Þóris Ísólfssonar. Vík hreif alla með sér fór á fyrstu sýningu í 8,19 fyrir hæfileika, fór á Landsmót og hækkaði þar í 8,30 fyrir hæfileika.  Síðsumars átti svona annar 4.vetra gullmoli, Ósvör frá Lækjamóti, eftir að fara í frábæran dóm, 8,02 fyrir hæfileika.  Ógleymanlegar stundir sem við upplifum vonandi aftur seinna. 

 

 

En það voru ekki bara skemmtilegar stundir á keppnis-og kynbótabrautinni.  Sonja, Friðrik og Jakob fluttu heim á Lækjamót frá Danmörku. Sonja útskrifaðist sem dýralæknir og er nú þegar orðin eins og aðrir dýralæknar, alltaf á þönum og nóg að gera.  Friðrik sinnir tamningu, þjálfun og kynbótadómarastörfum og Jakob litli heillar alla og nýtur góðs af því að hafa ömmu og afa í sama húsi. 

 

 

Keppnin hélt áfram og auk minni móta var farið á tvö sterkustu mót ársins, Landsmót og Íslandsmót.  Árangur á þeim mótum var mjög góður, á Landsmóti var Ísólfur í þremur úrslitum og bar þar hæst A-úrslit í tölti á Kristófer frá Hjaltastaðahvammi. Á Íslandsmóti komst Ísólfur einnig í úrslit í öllum þeim greinum sem hann tók þátt í og átti margar glæsilegar sýningar.  


 

Þann 4.ágúst fjölgaði í Lækjamótsfjölskyldunni þegar yndisleg lítil stúlka kom í heiminn. Dóttir Sigurðar Líndal og Gretu Claug.  Hún var skírð í höfuðu á ömmu sinni og er því alnafna hennar, Elín Rannveig Sigurðardóttir.  Algjör draumur í dós og ekkert sem toppar þennan viðburð á árinu!

 

 

 

það hefur sjálfsagt ekki farið fram hjá mörgum að miklar framkvæmdir hafa verið á Lækjamótsjörðinni en Ísólfur og Vigdís byggðu hesthús, reiðhöll, hringvöll og kynbótabraut.  Erum við verulega ánægð með alla framkvæmd og frágang á þessari nýju aðstöðu og mega allir sem að framkvæmdinni komu vera stoltir af því verki sem þeir lögðu mikinn metnað í og hafa lokið.  Þann 25.ágúst var opinn dagur, sá dagur heppnaðist í alla staði mjög vel, fullkomið veður og fjölmargir gestir sem sáu sér fært að mæta. 

 

 

 

Haustið fór eins og venjulega í allar gerðir af smalamennskum (heimaland, hálendið og eyjar á Breiðafirði) og frumtamningar, skemmtilegur tími sem kemur sem betur fer alltaf aftur á hverju ári.

 
 
 

 

Í byrjun nóvember var haldin uppskeruhátíð Þyts og hrossaræktarsamtakanna.  Það var mikil hátíð eins og alltaf með frábærum skemmtiatriðum. Ísólfur hlaut verðlaun sem knapi ársins hjá hestamannafélaginu Þyt og Lækjamót var hrossaræktarbú ársins í V.-Hún. 

 

 

Árinu var svo lokað með kjöri íþróttamanns ársins í Húnaþingi vestra en þann titill hlaut Ísólfur, þriðja árið í röð enda árangur ársins glæsilegur.

 

 

 

 

 

 

 

Flettingar í dag: 197
Gestir í dag: 56
Flettingar í gær: 341
Gestir í gær: 100
Samtals flettingar: 218350
Samtals gestir: 35287
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 13:05:24
LÆKJAMÓT  |  531 HVAMMSTANGI - ÍSLAND  |  +354 4512570  | [email protected]