13.07.2015 21:22

Íslandsmót 2015 - Frábærir hestar og gott veður

"Vá hvað er mikið til af góðum hrossum" er setning sem ómar í höfðinu á manni eftir nýafstaðið Íslandsmót sem haldið var af hestamannafélaginu Spretti í Kópavogi.  Mótin verða sífellt sterkari hvað varðar hæfileika þeirra hrossa sem þar koma fram, reiðmennska er langoftast til fyrirmyndar og margar glæsilegar sýningar sjást.  Það var virkilega gaman að taka þátt í þessu flotta móti þar sem öll umgjörð og framkvæmd Sprettara var til fyrirmyndar. Mikill metnaður var greinilega að þar að baki hjá stjórn og félagsmönnum öllum sem lögðu sig fram um að taka vel á móti öllum gestum.  Þónokkrir áhorfendur voru í brekkunni á sunnudeginum sem er vonandi þróun sem heldur áfram og að okkar mati er mjög jákvætt að halda mótin saman þ.e yngri flokka ásamt fullorðnum. Gaman var að fylgjast með ungum og efnilegum knöpum framtíðarinnar og skemmtileg stemming myndaðist. 

 

Það var alls farið með 9 hross héðan frá Lækjamóti. Ísólfur keppti á 6 þeirra og Karítas Aradóttir sem starfar hjá okkur Ísólfi og Vigdísi á Sindrastöðum fór með 3 hross en Karítast er í unglingaflokki. Árangur þeirra beggja var glæsilegur á mótinu. Karítast keppti í fyrsta sinn í 100 m. skeiði á hestinum Muninn frá Auðsholtshjáleigu sem er einnig byrjandi á þessu sviði og einungis 6 vetra gamall. Þau fóru á  tímanum 8,53 sek og urðu í 2.sæti.

Karítas og Muninn frá Auðsholtshjáleigu urðu í 2.sæti í 100 m.skeiði 
 

 

Karítas keppti einnig í tölti unglinga á Björk frá Lækjamóti, komst í b-úrslit og endaði í 8.sæti með einkunnina 6,44.  Frábær árangur hjá þeim á sínu fyrsta íslandsmóti saman. 

 

Karítas og Björk frá Lækjamóti að lokinni verðlaunaafhendingu í tölti 

 

Það gekk ekki síður vel hjá Ísólfi en hann keppti á Sólbjarti í fimmgangi og hlaut í forkeppni 7,43 sem var þriðja hæsta einkunn inn í úrslit. Því miður meiddist Sólbjartur aðeins og því mætti hann ekki í úrslitin en árangur hans engu að síður frábær. 

Ísólfur og Sólbjartur á miklu skeiði

 

Í fjórgang fór Ísólfur með þá Freyði frá Leysingjastöðum og Kristófer frá Hjaltastaðahvammi.  Þeir voru báðir að venju glæsilegir, Kristófer hlaut 7,10 og Freyðir 7,27 og þar með sæti í A-úrslitum.  

 

Ísólfur og Freyðir í A-úrslitum í fjórgangi. Þeir enduðu í 6.sæti. 

Ísólfur keppti einnig á þessum köppum í tölti, þar hlaut Freyðir 7,33 og Kristófer 7,63 sem dugði þó ekki í úrslit á þessu sterka móti.

Ísólfur og Kristófer hlutu 7,63 í tölti og rétt utan við B-úrslit

 

Í slaktaumatölt mætti svo Ísólfur með Gulltopp frá Þjóðólfshaga sem var í miklu stuði. Allt gekk upp og einkunn í forkeppni 8,07 sem var önnur hæsta einkunn inn í úrslitin. 

Ísólfur og Gulltoppur voru flottir í úrslitunum, sýndu frábæran slakan taum og enduðu í þriðja sæti með 8,04 í einkunn 

 

Árangurinn á hringvellinum frábær og ef tekin er saman meðaleinkunn Ísólfs úr öllum þessum 6 forkeppnum á þessum fjórum hestum þá er hún 7,47 sem okkur þykir ansi gott. 

 

Þó að við eigum engan heiður af því þá er ekki annað hægt í þessari samantekt en að minnast á hina flottu hestakonu frá Þyt, Evu Dögg Pálsdóttur, sem keppti á Brúney frá Grafarkoti í fjórgangi og slaktaumatölti en þær stöllur urðu í 7.sæti í fjórgangi og gerðu sér lítið fyrir og sigruðu slaktaumatölt unglinga!  Stórglæsilegur Íslandsmeistari þar á ferð!

 
Íslandsmeistararnir Eva Dögg og Brúney voru glæsilegar saman 

 

Flettingar í dag: 122
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 367
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 214977
Samtals gestir: 34583
Tölur uppfærðar: 16.4.2024 12:25:20
LÆKJAMÓT  |  531 HVAMMSTANGI - ÍSLAND  |  +354 4512570  | [email protected]