29.03.2015 19:13

hestamót og leiksýning

Það hafa nokkur mót farið fram síðan síðast var ritað.  Töltkeppni Meistaradeildar VÍS fór fram 12. mars. Ísólfur keppti þar á Flans frá Víðivöllum fremri. Flans kom til okkar í ágúst 2014 og hefur gengið vel að þjálfa hann í vetur. Æfingar fyrir töltkeppni gengu einnig vel en því miður var Flans ekki í stuði þetta kvöld og komust þeir ekki í úrslit.  

 

Húnvetnska liðakeppnin hélt einnig áfram í mars, fimmgangur var næsta á dagskrá. Þar fóru Ísólfur og Vigdís með tvær ungar hryssur Glóey frá Torfunesi og Orrustu frá Lækjamóti. Þær komust í hringina og lærðu mikið af þessu.  Alltaf gaman að prófa ný hross, læra betur á þau og auka við reynslu þeirra. Í yngri flokkunum var keppt í tölti. Þar fór Karítas okkar með Björk frá Lækjamóti í unglingaflokki, sigraði glæsilega með 6,58.  Ungur og efnilegur drengur, Eysteinn Tjörvi Kristinsson hefur undanfarnar vikur komið í reiðtíma til okkar og hjálpað til við ýmis verk í hesthúsinu. Hann fékk lánaða hjá okkur gæðinginn Sýn frá Grafarkoti. Þau sigruðu barnaflokkinn með 6,17.  Í pollaflokki mætti Guðmar okkar galvaskur að vanda með Valdísi frá Blesastöðum 1A en þau eru frábærir félagar og alltaf flott saman.

Karítas og Björk frá Lækjamóti sigruðu tölt í unglingaflokki

 

Eysteinn og Sýn frá Grafarkoti sigruðu tölt í barnaflokki

 

22.mars brunuðu Ísólfur og Vigdís norður á Akureyri til að taka þátt í Stjörnutölti en sú keppni var nú færð inn í glæsilega reiðhöll Léttismanna á Akureyri en hefur fram að þessu verið í skautahöllinni.  Ísólfur keppti á Flans frá Víðivöllum Fremri og Vigdís á Sögn frá Lækjamóti.  Áður en keppnin hófst var Ísólfur með sýnikennslu í gæðingafimi. Mætti hann með Kristófer frá Hjaltastaðahvammi, sagði frá helstu grunn- og skyldu æfingum og útskýrði hvernig æfingarnar væru gerðar. Í lokinn sýndi hann prógrammið sem skilaði þeim sigri í MD VÍS en um leið og þeir sýndu prógrammið útskýrði Ísólfur hvað hann var að gera.

Keppnin fór  þannig að Vigdís og Sögn komust í b-úrslit og enduðu í 6.sæti en hjá Ísólfi og Flans gekk nú allt upp og þeir gerðu sér lítið fyrir og sigruðu með einkunnina 7,94. 

 

Ísólfur og Flans frá Víðivöllum fremri sigruðu Stjörnutölt 2015

 

Vigdís og Sögn frá Lækjamóti

 

28.mars var förinni heitið suður til Reykjavíkur en þar fór fram Meistaradeild VÍS og að þessu sinni tvær skeiðgreinar, 150 m. og gæðingaskeið. Ísólfur keppti á Sólbjarti frá Flekkudal í gæðingaskeiði.  Aðstæður á vellinum hentuðu Sólbjarti illa, snjór og klaki var yfir brautinni og Sólbjartur vildi ekki beita sér almennilega, fór meira upp en áfram.  Niðurstaðan 14.sæti í gæðingaskeiði að þessu sinni.  í 150 m. keppti Ísólfur á Stygg frá Akureyri en hún er flugvökur Kjarvalsdóttir sem er í miklu uppáhaldi hjá okkur. Þetta var frumraun þeirra í kappreiðum en Stygg elskar að skeiða og það skilaði góðum tíma og 9.sæti í keppninni sem skilaði 2 stigum. Ísólfur er því núna þegar tvær greinar eru eftir í Meistaradeild VÍS í 2.sæti einstaklingskeppninnar með 32 stig. 

 

Á meðan foreldrarnir fara um land allt á hestamót hefur eldri sonur Ísólfs og Vigdísar hann Ísak Þórir staðið sig frábærlega á leiksviðinu en hann fór með eitt aðalhlutverkið í söngleiknum Thriller sem sett var á svið hjá Grunnskóla Húnaþings vestra núna í mars.  Foreldrarnir gætu ekki verið stoltari af þessum flotta strák sem leikur og syngur eins og ekkert sé sjálfsagðara.  

Ísak Þórir Ísólfsson að syngja og leika í leikritinu Thriller
Það reynir mikið á Ísak á sviðinu en hann sýnir reiði, gleði, sorg og ofsa hræðslu í hlutverki sínu

 

 

 

 

 

 

Flettingar í dag: 10
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 293
Gestir í gær: 47
Samtals flettingar: 1074607
Samtals gestir: 230467
Tölur uppfærðar: 21.6.2019 00:08:31
LÆKJAMÓT  |  531 HVAMMSTANGI - ÍSLAND  |  +354 4512570  | laekjamot@laekjamot.is